154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:37]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta snýst auðvitað um háa verðbólgu og háa vexti. Meginverkefnið er að reyna að snúa þeirri þróun við. Í raun og veru fer nánast allt í þessu fjárlagafrumvarpi í ranga átt. Við getum tekið vaxtagjöldin sem dæmi. Við getum tekið það sem dæmi að það er verið að auka álögur á heimili landsins, sömu heimili og hafa verið að taka á sig gríðarlega þungar byrðar vegna vaxta og verðbólgu. Það er verið að auka álögur á fyrirtækin í landinu. Það er lítið gert til að forgangsraða með almennilegum hætti. Það er verið að boða auknar lántökur, það er í raun og veru verið að gera allt það sem við eigum ekki að vera að gera í þessum fjárlögum. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt: Það er algjört metnaðarleysi að guma sig af því að þetta séu hlutlaus fjárlög þegar þau eiga auðvitað að styðja við Seðlabankann í því verkefni sem hann er í. Þetta þýðir ofur einfaldlega að vaxtastigið verður hátt lengur en það þarf að vera og sömuleiðis verðbólga.